Aðdragandi

Mikill uppgangur var í atvinnulífi á Seyðisfirði um aldamótin 1900 og íbúafjölgun hröð. Stafaði það meðal annars af umsvifum kaupmanna sem höfðu mikil viðskipti við bændur á Fljótsdalshéraði. En einnig höfðu norskir síldveiðimenn komið sér þar upp bækistöðvum og voru með ýmis umsvif. Bæjarfélagið var vel sett fjárhagslega og var fyrst til að hrinda af stað ýmsum framfaramálum. Meðal annars var þar lögð fyrsta vatnsveita í kaupstað á Íslandi, árið 1906.

Fjarðará kemur af Fjarðarheiði. Að austanverðu er heiðin brött og fellur áin þar í mörgum fallegum fossum. Þegar niður á undirlendið kemur rennur hún um 2 km til sjávar í gegnum kaupstaðinn. Snemma var farið að líta til Fjarðarár til virkjunar og árið 1907 var leitað eftir tilboðum erlendis frá í virkjun til ljósa fyrir Seyðisfjarðarkaupstað. Tilboð barst frá Kaupmannahöfn en bæjarstjórninni þótti það of hátt. Raflýsing yrði tvöfalt dýrari en olíulýsingin sem var fyrir. Var málinu því skotið á frest.

Rúmlega fjórum árum síðar, 1912, barst tilboð í virkjun Fjarðarár sem fallist var á. Var það frá þýska fyrirtækinu Siemens & Schuckert.

RARIK

Fjarðarselsvirkjun