Vígslan

Fjarðarselsvirkjun var vígð árið 1913 og var henni vel tekið af bæjarbúum, enda stærsta framfarasporið af mörgum sem stigin voru á Seyðisfirði um það leyti. Haldin var sérstök rafljósahátíð og ort að minnsta kosti sjö kvæði af því tilefni. Eitt þeirra, eftir Karl Jónasson, hófst á þessa leið:

Á kvöldin þegar húma fer í heimi
svo handa sinna enginn greinir skil
og himinljósin guðs í víðum geimi
oss gefið fá ei lengur birtu og yl,
vér þolum ekki þá í myrkri að híma
en þráum ljóssins geisla skinið bjart,
og nægir ekki lengur lítil skíma:
oss löngu síðan birtu-þráin snart.Kostnaðarsamt mannvirki

Það einkennir vatnsaflsvirkjanir að stofnkostnaður þeirra er hár en á hinn bóginn endast þær lengi. Það áttu Seyðfirðingar eftir að reyna. Fjármögnun virkjunarinnar gekk erfiðlega. Ríkisábyrgð fyrir láni sem Alþingi hafði samþykkt virtist ætla að bregðast um tíma en fékkst þó um síðir, ekki síst fyrir harðfylgi þingmanns bæjarins, Jóhannesar Jóhannessonar. Síðan kom í ljós að kostnaður við framkvæmdirnar hafði farið verulega fram úr áætlun. Hefði það reynst bænum jafnvel ofviða ef ekki hefði komið til lán frá hafnarsjóði Seyðisfjarðar sem nam fjórðungi heildarkostnaðar. Bæjarbúar þurftu jafnframt að greiða hátt verð fyrir orkuna, þ.e. miðað við veitur nútímans.

Tveimur dögum eftir að Fjarðarselsvirkjun var gangsett gaf Kristján X Danakonungur út lög um rafmagnsveitur í kaupstöðum á Íslandi. Í framhaldi af því kom reglugerð frá stjórnarráði Íslands um notkun rafmagns og meðferð rafstraums í Seyðisfjarðarkaupstað. Þar er meðal annars kveðið á um að bæjarfélagið hafi einkarétt á rafmagnssölu í bænum en beri jafnframt skylda til að sjá þeim fyrir rafmagni sem þess óska.

RARIK

Fjarðarselsvirkjun